Ballett á tunglinu

Tríó Ísak

Harpa Kaldalón

15:00

28. janúar

Don Kíkóti, Molly Bloom og skrímslið Ubu ferðast til tunglsins í flutningi Ísaks Ríkharðssonar, Hyazinthu Andrej og Stefans Kägi. Frumflutningur á Íslandi á tveimur píanótríóum: White Flags eftir Daníel Bjarnason og Présence eftir Bernd Alois Zimmermann. White Flags fjallar um ameríska fána sem skildir voru eftir á tunglinu fyrir 50 árum síðan í Apolló geimferðaáætluninni en hafa upplitast vegna útfjólublárrar geislunar og eru orðnir hvítir. Verkið blandar saman ameríska þjóðsöngnum og “white noise”. Présence er mótsagnakenndur ballet með sögumanni og þremur dönsurum, þeim Don Kíkóta, Molly Bloom úr Ulysses eftir James Joyce og skrímslinu Ubu úr samnefndu leikriti eftir Alfred Jarry. Hinsvegar eru dansararnir einungis hljóðfæraleikarar og sögumaðurinn er bara látbragðsleikari.

Efnisskrá

Daníel Bjarnason (IS) : White flags (2018) ‘10 min.               
fiðla, selló, píanó, frumflutningur á Íslandi

Bernd Alois Zimmermann (DE) : Présence (1961) ‘35 min.
fiðla, selló, píanó, frumflutningur á Íslandi

Flytjendur

Ísak Ríkharðsson - fiðla, Hyazintha Andrej - selló, Stefan Kägi - píanó

Ísak Ríkharðsson er fæddur árið 1993 í Reykjavík. Hann er búsettur og sjálfstætt starfandi í Sviss. Hann lauk BA og MA frá Tónlistarháskólanum í Zürich (ZHdK) þar sem kennari hans var Rudolf Koelman. Ísak er lausráðinn við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Collegium Novum Zürich, Musikkollegium Winterthur, Basel Sinfonietta og Sinfonieorchester Liechtenstein og kemur reglulega fram með hinum ýmsu kammermúsíkhópum. Auk þess er hann einn af stofnmeðlimum Kammersveitarinnar Elju og spilar í kammerhópnum Ever Present Orchestra sem hefur sérpantað og frumflutt verk eftir Alvin Lucier. Í maí síðastliðnum spilaði Ísak með nútímamúsíkhópnum Norbotten Neo á tónleikaferð þeirra um Svíþjóð og núna í byrjun október fór hann til Tbilisi í Georgíu sem einleikari í þrefalda konsert Beethovens með Tbilisi Youth Orchestra undir stjórn Mirian Khukhunaishvili. 

Hyazintha Andrej er fædd í Graz í Austurríki árið 1995. Árið 2014 hóf hún nám við Tónlistarháskólann í Zürich (ZHdK) hjá Thomasi Grossenbacher. Hyazintha hefur hlotið verðlaun fyrir flutning 20. aldar tónlistar í Internationalen Musikwettbewerb für die Jugend í Oldenburg í Þýskalandi. Haustið 2016 kom hún fram sem sólisti í Zürich og Berlín með Arc-en-ciel hópnum í verkinu Violation eftir Dieter Ammann. Árið 2017 vann hún praktikum stöðu við Tonhalle hljómsveitina í Zürich. Hún hefur komið fram í Sviss, Austurríki, Þýskalandi, Ungverjalandi, Írlandi og á Ítalíu. 

Stefan Kägi - flytjandi stóla, sansúlu virtúós og ástríðufullur tölvutónlistarmaður - stundaði píanóleik við Tónlistarháskólann í Zürich (ZHdK) hjá Karl-Andreas Kolly, spuna hjá Lucas Niggli, nútímatónlist hjá See Siang Wong, jazzpíanóleik hjá Tim Kleinert og orgelleik hjá Ursinu Caflisch. Hann kannar jafnt möguleika bananabúninga og algríma í list sinni. Hann kemur reglulega fram sem meðleikari með ljóðasöng og spilar frjálsa spunatónlist. Heidenheimer Zeitung hefur lýst túlkun hans sem ,,ákaflega tjáningarfullri, næstum eins og slagverk, en ekki alltaf sársaukalaus upplifun fyrir eyrað“. Stefan hefur m.a. komið fram í Tonhalle salnum í Zürich, LAC í Lugano, Gasteig í München, Kaserne í Basel, Hyperlokal í Zürich og á ánni Limmat, auk hátíða líkt og Festspiele Zurich, "Platz für andere Musik", Zeitfestival í Zürich og Augsburg, Domleschger Sommerkonzerte, far Festival í Nyon, #workoutjazz madness og #workoutjazz marathon og Emser Bachwoche. Hann var meðal ritstjóra í nýrri útgáfu verks eftir Joachim Raff hjá Breitkopf & Härtel. Hann er meðlimur í Dada/Commedia dell’Arte hópnum Piffalamozza, japansk-HC teknóbandinu Candytoe, í orgel/elektróník dúói, dúó OHRABLÜATLER, PHON3M collective og dúó tbc.