Frá draumi til draums

Strengjakvartettin n Gró

Mengi

kl. 15:00

29. JAN

Frá draumi til draums

Íslensk tónlist, samin fyrir strengjakvartett, verður í forgrunni í fjölbreyttri dagskrá, með nýlegum og eldri verkum eftir karla og konur. Íslenskir strengjakvartettar heyrast sjaldan á tónleikum þó flest tónskáldanna okkar spreyti sig, einhvern tímann á ferlinum, á því að skrifa kvartett. Of margir þeirra hljóta þau örlög að hljóma bara einu sinni á tónleikum og svo aldrei aftur.

Við teljum mikilvægt að þessir kvartettar fái að hljóma aftur á tónleikum. Fyrir nýja áheyrendur. Túlkaðir af nýjum flytjendum. Og öðlast þannig framhaldslíf. Titillinn “Frá draumi til draums” vísar í strengjakvartett Jóns Nordals frá árinu 1996, sem er elsta verk tónleikanna, en önnur verk þessarar draumaefnisskrár Strengjakvartettsins Gróar, eru eftir Svein Lúðvík Björnsson, Þuríði Jónsdóttur og Báru Gísladóttur

Efnisskrá:

Bára Gísladóttir (f. 1989): otoconia (2017)

Sveinn Lúðvík Björnsson (f. 1962): ...og í augunum blik

Þuríður Jónsdóttir (f. 1960): Fána (2018)
minninga (2007)

Jón Nordal (f. 1926): Frá draumi til draums (1996)

Um flytjendur:
Þær Gunnhildur, Gróa Margrét, Guðrún Hrund og Hrafnhildur leika nú í fyrsta skipti saman sem strengjakvartettinn Gró. Þær hlutu listamannalaun úr úthlutun Listamannalauna árið 2021, til þess að vinna saman að verkefni sem var frestað vegna kórónuveirufaraldursins og stærra verkefni að lokum fellt niður. Stöllurnar fengu þá samþykkta tillögu að nýrri efnisskrá með íslenskum strengjakvartettum — kvartettum sem þær völdu í sameiningu og fannst spennandi að takast á við og leyfa íslenskum áheyrendum að njóta.
Þær eru allar reyndir kammermúsíkspilarar og hafa margoft komið fram saman á tónleikum, með stórum og litlum tónlistarhópum, til að mynda; Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kammersveit Reykjavíkur, Barokkbandinu Brák og Kammerhópnum Jöklu.

Gunnhildur Daðadóttir, fiðla

Gunnhildur Daðadóttir stundaði fiðlunám við Tónlistarskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands, hjá Guðnýju Guðmundsdóttur. Hún lauk næst framhaldsnámi við Listaháskólann í Lahti í Finnlandi og síðar Mastersnámi við University of Illinois og Diplómanámi frá University of Michigan. Hennar aðalkennarar voru Sigurbjörn Bernharðsson og Aaron Berofsky. Að námi loknu flutti Gunnhildur aftur heim og er nú fastráðinn fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og leikur jafnframt reglulega með; Barokkbandinu Brák, Kammersveit Reykjavíkur, Hljómsveit Íslensku Óperunnar og SinfoniaNord. Um árabil var Gunnhildur einn af framkvæmdastjórum Tónlistarhátíðar Unga Fólksins sem var haldin í Kópavogi á árunum 2009-2017. Gunnhildur hefur einnig lokið 1. stigi í Suzukifiðlu-kennaranámi og kennir nokkrum nemendum. Vorið 2020 stofnaði Gunnhildur, ásamt Guðnýju Jónasdóttur, kammerhópinn Jöklu, sem hefur nú þegar leikið á þó nokkrum tónleikum í mismunandi hljóðfærasamsetningum.

Gróa Margrét Valdimarsdóttir, fiðla

Gróa Margrét útskrifaðist með B. Mus gráðu í fiðluleik frá Listaháskóla Íslands, undir handleiðslu Auðar Hafsteinsdóttur, árið 2006. Að loknu námi í Listaháskólanum hélt hún til Þýskalands og síðan til Bandaríkjanna, þar sem hún kláraði M. Mus gráðu í fiðluleik frá University of Illinois, undir handleiðslu Sigurbjörns Bernharðssonar. Þá stundaði hún nám við The Hartt School, hjá Anton Miller og útskrifaðist árið 2011, með Graduate Professional Diploma og Artist Diploma, vorið 2013.

Gróa Margrét hefur komið fram sem einleikari með ýmsum hljómsveitum og má þar helst nefna; Foot in the Door Contemporary Ensemble, Sinfóníuhljómsveit Unga fólksins, University of Illinois Symphony Orchestra og Hartt Collegium Musicum. Gróa er mikill áhugamaður um flutning nýrrar tónlistar og hafa nokkur verk verið tileinkuð henni sérstaklega, þar á meðal fiðlukonsert eftir Benjamin Park, sem hún frumflutti árið 2013 með Foot in the Door Contemporary Ensemble. Hún er einnig annar tveggja listrænna stjórnenda samtímatónlistarhátíðarinnar New Music for Strings á Íslandi. Gróa Margrét hefur einnig mikinn áhuga og metnað fyrir upprunaflutningi barokktónlistar. Hún lék með ýmsum barokkhópum í gegnum nám sitt í Bandaríkjunum og kemur reglulega fram á tónleikum, ýmist með hljómsveitum eins og Barokkbandinu Brák og Alþjóðlegu Barokksveitinni í Reykjavík eða smærri kammerhópum. Þá hefur Gróa Margrét mikinn áhuga á kennslu og hefur lokið 5. stigi í Suzuki-kennaranámi, hjá Lilju Hjaltadóttur. Gróa Margrét leikur einnig með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Hljómsveit Íslensku Óperunnar.

Guðrún Hrund Harðardóttir, víóla

Guðrún Hrund stundaði framhaldsnám í víóluleik við Tónlistarháskólann í Köln en hélt síðan áfram sérhæfðu námi í barokkvíóluleik og upprunaflutningi við barokktónlistardeild Konunglega tónlistarháskólans í Haag. Að námi loknu bjó hún um nokkurra ára skeið í Hollandi og starfaði með með ýmsum hljómsveitum og upprunahópum, svo sem; Hollensku útvarpshljómsveitinni, Collegium musicum Den Haag, B’rock og Anima Eterna Brugge. Guðrún Hrund býr nú í Reykjavík og hefur verið fastráðinn víóluleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands síðan 2010. Hún leikur reglulega með Kammersveit Reykjavíkur, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Salonhljómsveitinni L’amour fou, kammerhópnum Jöklu og Alþjóðlegu barokksveitinni. Með Barokkbandinu Brák og Nordic Affect, hefur hún á undanförnum árum leikið inn á nokkrar plötur sem hafa komið út hjá bandaríska plötufyrirtækinu Sono luminus og hlotið feikna góða dóma og verið tilnefndir til verðlauna. Guðrún Hrund hefur í áranna rás leikið á tónleikum með Björk Guðmundsdóttur víða um heim, en hún var meðlimur í Íslenska strengjaoktettnum sem lék með Björk á plötunni Homogenic. Guðrún Hrund hefur sérstakan áhuga á miðlun tónlistar til barna og lauk námi við Willem de Kooning Academie í Rotterdam árið 2009 (Beroepskunstenaar in de Klas-diploma) og stundar nú mastersnám við Listkennsludeild Listaháskóla Íslands.

Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir, selló

Hrafnhildur Marta hóf sellónám við Tónlistarskólann á Akureyri, ung að árum, þaðan sem hún lauk framhaldsprófi undir handleiðslu Ásdísar Arnardóttur. Í framhaldi af því lærði hún hjá Sigurgeiri Agnarssyni og Gunnari Kvaran, við Listaháskóla Íslands og Morten Zeuthen, við Konunglega Konservatoríið í Kaupmannahöfn. Vorið 2019 lauk Hrafnhildur meistaranámi við Jacobs School of Music, Indiana University, undir handleiðslu Brandon Vamos, sellóleikara Pacifica strengjakvartettsins. Í náminu var hún handhafi Premier Young Artist Award og Marcie Tichenor skólastyrkjanna. Hrafnhildur hefur auk þess sótt einkatíma og meistaranámskeið hjá; Johannes Moser, Alisu Weilerstein, Richard Aaron, Darrett Adkins, Eric Kim, Amir Eldan, Marcy Rosen, Alison Wells og fleirum. Hrafnhildur hefur komið víða fram á tónlistarhátíðum, innanlands og utan, leikið með hljómsveitum beggja vegna Atlantshafsins og leikið einleik með bæði Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hún hefur gegnt stöðu leiðara sellódeildar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands síðan 2019 auk þess að hafa verið fyrsta selló í hljómsveitum á borð við Aurora Symphony Orchestra í Stokkhólmi og Aspen Opera Orchestra í Colorado, Bandaríkjunum. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir sellóleik sinn, svo sem; tónlistarverðlaun Rótarý, viðurkenningu frá Minningarsjóði Jean-Pierre Jacquillat og minningarsjóði Jóns Stefánssonar, Thor Thors Fellowship og Leifur Eiríksson Fellowship. Hrafnhildur hefur einnig unnið til verðlauna sem meðlimur í Kuttner strengjakvartettinum, fyrrum heiðurskvartett Indiana University, sem hefur meðal annars verið staðarkvartett við Beethoven húsið í Bonn. Í framhaldi af því bauðst kvartettinum að taka upp stutt, ókláruð kammerverk eftir Beethoven fyrir Naxos, sem aldrei hafa verið tekin upp fyrr en nú. Voru þessar upptökur hluti af heiðursútgáfu Naxos á öllum verkum Beethovens sem gefin var út árið 2020, í tilefni af 250 ára ártíð tónskáldsins. Hrafnhildur leikur á Garavaglia selló frá árinu 2011 og boga úr smiðju James Tubbs frá nítjándu öld.

Tónleikarnir eru styrktir af Tónlistarsjóði og launasjóði listamanna