Ave Maris Stella

Hljómeyki

Laugarneskirkja

16:30

29. JAN

Á tónleikum sönghópsins Hljómeykis á Myrkum músikdögum hverfist þema tónlistarinnar um Maríubænina: Ave Maris Stella, en íslenskar tónbókmenntir eru ekki mjög auðugar af tónverkum við þennan texta. Því ákvað kórinn að sækja um styrk til smíða á þremur nýjum tónverkum við bænina. Hljómeyki frumflytur nú verkin þrjú, en þau eru eftir tónskáldin í kórnum; Egil Gunnarsson, Eygló Höskuldsdóttur Viborg og Hildigunni Rúnarsdóttur. Fjögur önnur verk, við þennan sama texta, verða flutt á tónleikunum og spanna þau tímann frá 19. öld, allt fram á okkar daga. Einnig verður verkið Sieben Magnificat-Antiphonen eftir Arvo Pärt flutt á tónleikunum. 

Efnisskrá

Lajos Bárdos 1899-1986  Ave Maris Stella 
Arvo Pärt 1935- Sieben Magnificat-Antiphonen
James MacMillan 1959- Ave Maris Stella
Eygló Höskuldsdóttir Viborg 1989 - Ave Maris Stella, frumflutningur
Hildigunnur Rúnarsdóttir 1964-  Ave Maris Stella, frumflutningur
Egill Gunnarsson 1966-  Ave Maris Stella, frumflutningur
Edvard Grieg 1843-1907  Ave Maris Stella
Philip Stopford 1977- Ave Maris Stella

Flytjendur
Hljómeyki
Erla Rut Káradóttir
, stjórnandi

Um Hljómeyki

Sönghópurinn Hljómeyki var stofnaður árið 1974. Hópurinn skipaði sér þegar í fremstu röð íslenskra kóra og hefur á þeim áratugum sem liðnir eru, flutt ógrynni verka af margvíslegu tagi — allt frá fjölradda kórmúsík endurreisnarinnar til íslenskrar rokktónlistar samtímans. Kórinn tekur iðulega þátt í hátíðum sem helgaðar eru nýrri tónlist, svo sem Myrkum músíkdögum og Norrænum músíkdögum, ásamt því að syngja á hátíðum svo sem; Reykholtshátíð, Sumartónleikum í Skálholti og Þjóðlagahátíð á Siglufirði.

Hljómeyki hefur komið reglulega fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands á undanförnum árum. Þá hefur Hljómeyki komið fram með hljómsveitunum; Todmobile, Sólstöfum, Skálmöld og Dúndurfréttum, ásamt því að vera í reglulegu samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands að ýmsum verkefnum.

Um stjórnandann

Erla Rut Káradóttir stundaði nám í söng og píanóleik frá unga aldri og síðar orgelleik. Hún lauk kirkjuorganistaprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2015 og BA-gráðu í kirkjutónlist frá Listaháskóla Íslands árið 2020, þar sem eitt af aðalfögum hennar var kórstjórn. Kennarar hennar í kórstjórn voru m.a. Magnús Ragnarsson og Hörður Áskelsson. Hún hefur fjölbreytta reynslu af kórastarfi; bæði hefur hún sjálf sungið í kórum og sem stjórnandi og meðleikari. Erla Rut hefur auk þess lokið BA-gráðu í mannfræði. Hún er organisti í Tjarnaprestakalli í Hafnarfirði og Vatnsleysuströnd.