KLÁRT OG KVITT
Aurora og eldri stúlkurnar í Stúlknakór Reykjavíkur flytja tíu ólík verk samin eða útsett fyrir kvenraddir. Eitt verkanna verður þó spunnið á staðnum undir þjóðlaginu Móðir mín í kví, kví. Tónskáldin spanna heila kynslóð nútíma tónskálda á Íslandi. Þeirra á meðal er Jórunn Viðar (1918 - 2017) sem samdi fyrstu íslensku kvikmyndatónlistina (Síðasti bærinn í dalnum) og Hildur Guðnadóttir sem nýlega hlaut Golden Globe verðlaunin auk fjölda tilnefninga fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker.
Tónleikarnir Klárt og kvitt fara fram í Kaldalóni í Hörpu kl. 14:00 þann 1. febrúar og eru tæplega klukkutími að lengd. Þeir eru hluti af Myrkrabörnum, samtímatónlistarhátíð fyrir börn. Hátíðin er haldin samhliða Myrkum músíkdögum og er ætluð börnum á öllum aldri.
Aðgangur er ókeypis.
Kaldalón er staðsett á fyrstu hæð í Hörpu og er stæði fyrir hjólastóla á aftasta bekk í salnum.
Um Stúlknakór Reykjavíkur og Aurora
Stúlknakórinn var stofnaður af Margréti J. Pálmadóttur kórstjóra og skólastjóra sönghússins Domus vox haustið 1995 og hefur hún verið aðalstjórnandi hans síðan. Kórstarfið er nú í 5 deildum fyrir stúlkur frá 5 - 26 ára, þar sem dömukórinn AURORA er fyrir þær elstu. Ásamt Margréti eru kórstjórar kóranna Hildigunnur Einarsdóttir og Sigríður Soffía Hafliðadóttir. Kórarnir hafa haldið og tekið þátt í ýmsum tónleikum og margoft tekið þátt í tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands m.a. á jólatónleikum hljómsveitarinnar, uppsetingu á “Lord of the rings” eftir Howard Shore árið 2012 og í Þriðju Sinfóníu Mahlers 2014. Sama ár var tekinn upp jóladiskur með sinfóníuhljómsveitinni en þar sungu stúlkurnar með í nokkrum lögum. Á síðustu tveimur árum hafa stúlkurnar tekið þátt, auk jólatónleika, í uppsetningu sinfóníuhljómsveitarinnar á ”Ævintýrin um Múmínálfana” eftir Tove Jansson og í nýju tónlistarverki eftir Jóhann G. Jóhannsson, “Strákurinn og slikkeríið” eftir Roald Dahl. Stúlknakór Reykjavíkur og Aurora hafa ferðast til Þýskalands, Frakklands, Danmerkur og farið í margar söng- og tónleikaferðir til Ítalíu.
Back to All Events
Earlier Event: February 1
Ungafólkið rafmagnað á Myrkum
Later Event: February 1
AUKATÓNLEIKAR -> Dúó Freyja: Svava & Rannveig